Refur
Heimkynni refsins/heimskautarefsins (Vulpes lagopus) er á Norðurslóðum, frá túndrum Evrasíu og Norður Ameríku, Íslandi, Grænlandi og Svalbarða sem og á eyjum undan ströndum Síberíu og Kanada.
Á sumrin er hann með þynnri brúnan, dökkbrúnan eða gulan feld en á veturna er feldurinn þykkri og hvítur. Liturinn á feldinum gerir hann samlitan umhverfi sínu og ver hann gegn rándýrum (ísbjörnum, úlfum og örnum). Á Íslandi er ekki hætta á þessum rándýrum. Aðal dánarorsök refsins er hungur og þá aðallega á veturna þar sem erfitt getur reynst fyrir þá að afla sér ætis.
Refurinn býr í grenjum sem geta verið margskonar að gerð og lögun, fer það aðallega eftir staðháttum hvernig þau eru. Þau geta verið grafin í jarðveginn eða í stórgrýtisurð og oft eru þau með marga innganga og geta verið notuð í marga áratugi. Stundum búa yngri refir sem ekki eru að eignast afkvæmi (aðallega kvendýr) í sama greni og aðrir refir og hjálpa til við að ala afkvæmin. Á veturna geta grenin verið þakin snjóbökkum.
Karldýrið kallast oftast steggur eða högni og kvendýrið oftast læður eða bleiður. Stundum eru þau kölluð refur og tófa. Mökunartími refsins er frá febrúar til apríl og fæðast yrðlingarnir í grenjunum í maí eða júní eftir um það bil 50 daga meðgöngu. Refaparið er yfirleitt saman á meðan bæði lifa.
Á sumrin og haustin geyma refirnir auka mat undir steinum, í grenjum eða jafnvel í holum gröfnum í sífrerann. Þessi auka matur er svo nýttur á veturna þegar fæðuvalið er lítið.
Villtir refir lifa að meðaltali í 3-4 ár (á Íslandi í 6-10 ár) en geta orðið allt að 20 ára undir mannahöndum.
Áhugaverð staðreynd
Genarannsóknir gefa til kynna að það hafi verið og jafnvel sé enn talsvert samband eða samgangur á milli aðskildra hópa refa eða á milli landa. Uppi er sú kenning að þeir noti hafís til að ferðast á milli fjarlægðra staða og þar með blandast hóparnir saman.
Á meðal helstu ógna heimskautarefsins er útbreiðsla rauðrefsins sem er stærri og ágengari refategund. Er það aðallega vegna loftslagsbreytinga.