Norðurskautsráðið
Norðurskautsráðið (Arctic Council) er samstarfsvettvangur átta ríkja sem liggja að Norðurheimskautssvæðinu (norðurslóðum) og var stofnað árið 1996 með Ottawa-yfirlýsingunni. Samstarfið snýr að umhverfismálum, einkum loftslagsbreytingum, álitamálum varðandi nýtingu auðlinda og landakröfum á norðurslóðum.
Aðildarríki ráðsins eru átta talsins: Kanada, Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og Bandaríkin. Í ráðinu sitja einnig fastafulltrúar sex frumbyggjasamtaka á svæðinu og áheyrnarfulltrúar nokkurra ríkja utan norðurslóða (Bretlands, Frakklands, Hollands, Póllands, Spánar og Þýskalands), auk fulltrúa ýmissa samtaka. Aðildarríki ráðsins skiptast á að gegna formennsku. Svíþjóð gegndi formennsku í ráðinu til sumars 2013 en þá höfðu öll ríkin gegnt formennsku og nýr hringur hófst með formennsku Kanada sumarið 2013. Ísland mun gegna formennsku næst árin 2019-2021.
Sex vinnuhópar starfa innan Norðurskautsráðsins sem samanstanda af fulltrúum frá sérsviðum ráðuneyta, starfsmönnum opinberra stofnana og vísindamönnum. Starf þeirra spannar vítt svið, allt frá því að stemma stigu við loftlagsbreytingum og koma á neyðaráætlunum á svæðinu.
Öll verkefni eru styrkt af einhverju aðildaríkjanna.